Guðný Salvör Hannesdóttir, nemandi í 8. bekk Laugalandsskóla í Holtum, var ein þeirra sem fékk verðlaun í smásagnasamkeppni Kennarasambands Íslands og Heimilis og skóla.
Úrslit í samkeppni voru gerð kunn við hátíðlega athöfn í Kennarahúsinu í morgun, á Alþjóðadegi kennara. Börn og ungmenni í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum tóku þátt í keppninni.
Guðný Salvör fékk verðlaun í flokki grunnskólanemenda í 8.-10. bekk fyrir söguna Áhugaverður álfakennari. Hún fékk Kindle-lestölvu í verðlaun.
Þetta er í annað skipti sem Kennarasambandið, í samstarfi við Heimili og skóla, efna til keppni af þessu tagi og þátttakan var mjög góð en tæplega tvö hundruð smásögur bárust.
Dómnefnd skipuðu Kristín Ómarsdóttir skáld, Kristján Jóhann Jónsson, dósent á Menntavísindasviði HÍ, og Bryndís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOK.