Guðrún Fjóla Kristjánsdóttir á Selfoss er ein þeirra sem fékk viðurkenninguna „fyrirmynd í námi fullorðinna“ frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
„Áfram veginn“, er yfirskrift fundar sem haldinn var á Grand Hótel Reykjavík í vikunni en þar var Guðrúnu Fjólu og tveimur öðrum einstaklingum veitt þessi viðurkenning. Hinir voru Andri Steinn Birgisson og Haraldur Jóhann Ingólfsson.
Öll höfðu þau sigrast á ákveðnum hindrunum sem héldu þeim frá námi og náðu í kjölfarið góðum árangri í námsleiðum símenntunarmiðstöðvanna, Guðrún hjá Fræðsluneti Suðurlands, Andri Steinn hjá Mími-símenntun og Haraldur hjá Farskólanum Norðurlandi vestra.
Guðrún Fjóla er 37 ára. Átján ár liðu frá því að Guðrún lauk grunnskóla þar til að hún tók þráðinn upp að nýju. Hún hafði glímt við mikið þunglyndi, kvíða og brotið sjálfstraust. Guðrún fékk sendan bækling um námsframboðið hjá Fræðsluneti Suðurlands og eftir mikla hvatningu frá fjölskyldu sinni leitaði hún sér frekari upplýsinga og skráð sig í Grunnmenntaskólann sem hún lauk með mjög góðum árangri.
Að því loknu sótti hún Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum, í kjölfar þess nýtti hún sér aðstoð námsráðgjafa og hóf nám á Sjúkraliðabraut við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Guðrún hefur nú lokið náminu og starfar sem sjúkraliði í heimahjúkrun í Árnessýslu.
Andri Steinn er 29 ára, hann greindist með lesblindu viku fyrir samræmdu prófin í 10. bekk. Í framhaldinu setti Andri námsferilinn til hliðar og sneri sér að knattspyrnunni sem hann hafði stundað frá fimm ára aldri. Hann hafði afskrifað frekara nám eftir að knattspyrnuferlinum lauk vegna lesblindunnar. Það hafði þó verið draumur Andra að ganga í slökkviliðið, en til þess vissi hann að frekara nám væri nauðsynlegt. Með hvatningu frá kærustu sinni leitaði Andri til Mímis-símenntunar þar sem námsráðgjafi tók vel á móti honum og veitti honum þann stuðning sem hann þurfti. Andri stóð sig vel í námsleiðunum hjá Mími-símenntun og stundar nú nám í Íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík.
Haraldur Jóhann er 46 ára. Í grunnskóla var hann greindur lesblindur og fékk þau skilaboð í skólanum að hann gæti ekki lært. Hann fór snemma út á vinnumarkaðinn og var lengst af á sjó. Árið 2008 fór Haraldur í námsleiðina Aftur í nám hjá Farskólanum, það nám segir Haraldur að hafi breytt lífi sínu, þar komst hann að því að hann gat vel lært. Hann sótti fleiri námsleiðir hjá Farskólanum í framhaldinu og vorið 2011 lauk hann sveinsprófi í vélvirkjun frá Verkmenntaskólanum á Akureyri. Haraldur nam þó ekki staðar þar, heldur mun hann ljúka vélstjórnarréttindum B nú í desember.
Fyrirmyndirnar þrjár vildu allar koma þakklæti á framfæri við símenntunarmiðstöðvarnar sem þau höfðu sótt námið hjá einkum náms- og starfsráðgjafana sem höfðu veitt ómetanlega stuðning og uppörvun. Þeim bar saman um að fyrirkomulagði sem framhaldsfræðslan býður upp á ætti stóran þátt í því að þau hefðu lokið þessum áföngum, sótt sér frekari menntun og bætt stöðu sína á vinnumarkaðinum.