Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað Guðlaugu Einarsdóttur í Hveragerði skrifstofustjóra á skrifstofu sjúkrahúsa og sérþjónustu í heilbrigðisráðuneytinu.
Guðlaug var valin úr hópi tólf umsækjenda um embættið að undangengnu mati ráðgefandi nefndar.
Guðlaug er með BS próf í hjúkrun og embættispróf í ljósmóðurfræðum frá Háskóla Íslands. Einnig er hún með MPM próf í verkefnastjórnun og hefur hlotið alþjóðlega vottun í verkefnastjórnun. Þá er hún jafnframt með diploma frá Háskóla Íslands í opinberri stjórnsýslu fyrir stjórnendur í heilbrigðisþjónustu.
Guðlaug hefur starfað sem sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu/ velferðarráðuneytinu frá september 2018. Frá 2011 til 2018 starfaði hún hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, fyrst sem ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, síðan sem verkefnastjóri frá 2013 og sem deildarstjóri hjúkrunardeildanna Fossheima og Ljósheima frá 2016
Guðlaug tekur við skrifstofustjórastarfinu af Elsu B. Friðfinnsdóttur sem hefur gegnt því embætti frá árinu 2018.