Eyrbekkingurinn Guðmundur Ármann, fyrrverandi framkvæmdastjóri á Sólheimum í Grímsnesi, gefur kost á sér í 2. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg sem fer fram þann 19. mars næstkomandi.
„Það er gott að búa í Árborg, það er fjölskylduvænt, það er öflugt íþrótta- og tómstundastarf, fjöldi útivistarmöguleika og tækifærin eru mörg. Við erum á sama tíma í krefjandi stöðu og það skiptir miklu máli hvernig á verður haldið á næstunni. Við þurfum að fara vel með skattfé og tryggja að rekstur bæjarins sé sjálfbær. Við þurfum að nútímavæða stjórnsýsluna. Veita íbúum og atvinnulífi fyrirsjáanleika og að taka umhverfismál föstum tökum. Verkefnin eru mörg, spennandi og krefjandi,“ segir Guðmundur meðal annars í framboðstilkynningu sinni.
„Ég vil skapa þær aðstæður að hugverkaiðnaður geti byggst upp í Árborg, sjá til þess að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólar hefji starfsemi í Árborg þannig að foreldrar og börn hafi val. Auka valfrelsi þeirra sem nýta sér velferðarþjónustu og tryggja að stuðningur sé valdeflandi. Ég vil að við nýtum okkur einkaframtakið þar sem við á og að við séum óhrædd við að fara nýjar leiðir inn í nýja tíma,“ segir Guðmundur ennfremur.
Guðmundur Ármann er Eyrbekkingur frá 10 ára aldri og býr þar í dag. Hann er í sambúð með Birnu Ásbjörnsdóttur og eiga þau tvö börn auk þess sem Guðmundur á dóttur frá fyrra sambandi. Hann er menntaður rekstrarfræðingur, með menntun í lífrænum/lífelfdum landbúnaði og með mastersgráðu í umhverfisfræði. Guðmundur Ármann var framkvæmdastjóri Sólheima í 15 ár og sat í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps í 8 ár. Síðustu misseri hefur hann unnið að nýsköpunarverkefnum ásamt konu sinni.