Guðmundur bakari ber fegurstu mottuna

Guðmundur bakari með fegurstu mottu ársins 2021, þá Stefán Þór Sigurðsson og Sigurður Svansson frá HS Orku, og loks Sigurþór Jónsson, sem ber mottu ársins 2021.

Glæsilegir menn með falleg yfirvaraskegg söfnuðust saman fyrr í vikunni rétt áður en samkomutakmarkanir tóku gildi. Þetta voru mennirnir sem stóðu sig best í Mottukeppninni.

Meðal þeirra sem voru verðlaunaðir var Guðmundur Helgi Harðarson, bakari í GK bakaríi á Selfossi, en hann þótti bera fegurstu mottuna. Rakarastofan Herramenn í Kópavogi sá um að velja fegurstu mottuna, það yfirvaraskegg sem skaraði fram úr á fagurfræðilegan hátt. Að mati dómnefndar bar Guðmundur höfuð og herðar yfir aðra keppendur.

Guðmundur segir að innblásturinn að mottunni hafi verið bandaríski kvikmyndaleikarinn Val Kilmer, þá sérstaklega í vestranum Tombstone.

Sigurvegarar í áheitakeppninni voru ótvíræðir. Í einstaklingsflokki var það Sigurþór Jónsson sem safnaði hann alls 545.000 krónum og í liðaflokki voru það starfsmenn HS Orku sem náðu í flest áheit, söfnuðu alls rúmlega 1,2 milljónum króna. HS Orka tvöfaldaði síðan framlag sinna keppenda í áheitum.

Alls söfnuðust 12.210.726 krónur í áheitakeppni Mottumars í ár og voru þátttakendur á sjöunda hundraðið. Krabbameinsfélagið vill skila innilegum þakkarkveðjum til allra sem tóku þátt og söfnuðu fyrir mikilvægu rannsóknarstarfi, fyrir stuðningi við krabbameinsgreinda og aðstandendur, fyrir forvörnum og fræðslu. Áheitavefurinn verður þá enn opinn út marsmánuð, vilji fólk enn styðja sinn mann, og að sjálfsögðu verður hægt að kaupa Mottumarssokka í verslunum um allt land, sem og í vefverslun Krabbameinsfélagsins.

Guðmundur bakari nostrar við mottuna glæsilegu.
Fyrri greinMyndi senda nokkrar Teslur til mín á Selfoss
Næsta greinHvalreki í Hvolsfjöru