Guðmundur verðlaunaður fyrir óeigingjörn störf

Guðmundur tekur við farandbikarnum. Ljósmynd/LUF

Landssamband ungmennafélaga verðlaunaði Félaga ársins 2022 á degi sjálfboðaliðans, þann 5. desember, við hátíðlega athöfn á Stúdentakjallaranum. Að þessu sinni hlaut verðlaunin Guðmundur Bjarnason í Túni í Flóahreppi, fyrrum formaður Samtaka ungra bænda.

„Auðvitað er ég glaður með viðurkenninguna. Það er mjög gaman að fá viðurkenningu fyrir sín sjálfboðaliða störf í gegnum árin,“ sagði Guðmundur í samtali við sunnlenska.is, en hann hefur komið víða við í félagsmálum í gegnum tíðina.

Bóndinn ungi hlaut fyrir vikið farandbikar en auk Guðmundar voru tilnefnd fyrir óeigingjörn störf sín í þágu íslenskra ungmenna þau Baldur Blöndal frá ELSA, Benedikt Bjarnason frá Ung norræn, Dagmar Óladóttir frá SHÍ, Diana Íva Gunnarsdóttir frá Ungum framsóknarmönnum, Natan Kolbeinsson frá Uppreisn og Ragnar Björnsson frá JCI.

LUF heldur þennan viðburð ár hvert til að hvetja til og heiðra sjálboðaliðastarf meðlima aðildarfélaga sinna.

Guðmundur með soninn, Stefán Eðvald.
Fyrri greinJólatónleikar Jórukórsins í kvöld
Næsta greinÚrvalslið á upplestri í Bókakaffinu