Guðrún Björg ráðin skólastjóri

Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir hefur verið ráðin í starf skólastjóra Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri frá og með 1. ágúst næstkomandi.

Hún tekur við starfinu af Páli Sveinssyni, sem er nýráðinn skólastjóri Vallaskóla á Selfossi. Alls bárust sex umsóknir um starf skólastjóra BES, en einn umsækjandi dró umsókn sína til baka.

Guðrún Björg hefur starfað við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri frá 2019, fyrst sem umsjónarkennari en sem aðstoðarskólastjóri frá 2020. Áður starfaði hún sem skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar og þar áður sem framkvæmdastjóri kennslu og þjónustu við Háskólann á Bifröst. Guðrún hefur góða reynslu af störfum innan skólakerfisins og víðar ásamt því að leggja félagsstörfum sitt liðsinni. Þar má nefna knattspyrnudeild Skallagríms, foreldrafélög Grunnskólanna á Húsavík og í Borgarnesi ásamt því að sitja í stjórn Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands.

Guðrún lauk B.sc gráðu í viðskiptafræði og MIB gráðu í Alþjóðlegum viðskiptum frá Háskólanum á Bifröst og tók kennsluréttindin við Háskólann á Akureyri.

Fyrri greinHreyfihringur í leikskólanum Jötunheimum
Næsta greinSyngjandi kaffikvörn og dansgjörningur í kartöfluskemmu