Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, býður sig fram til formanns flokksins á komandi landsfundi.
Hún tilkynnti þetta á fjölmennum fundi í Salnum í Kópavogi í dag. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram 28. febrúar til 2. mars.
„Það er mín niðurstaða eftir að hafa ígrundað málið vel að reynsla mín og þekking, gildi mín og einlægur vilji til að vera sameinandi afl muni nýtast flokknum vel í það mikilvæga verkefni sem fram undan er: Að leiða Sjálfstæðisflokkinn til farsællar framtíðar og vinna Íslandi heilt. Með þetta að leiðarljósi, að byggja upp, skapa samstöðu og ná árangri, tek ég auðmjúk við hinum fjölmörgu áskorunum sem mér hafa borist og ég býð fram krafta mína til að leiða Sjálfstæðisflokkinn,“ sagði Guðrún undir lok ræðu sinnar.