Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland en búist er við mikilli rigningu ásamt sunnanátt og hlýindum í dag, en í nótt kólnar og getur þá færð spillst á fjallvegum.
Í dag, sunnudag, má búast við auknu afrennsli vegna mikillar rigningar. Vaxið getur í ám og lækjum og er mikilvægt að fólk gæti þess að vatn komist sína leið í niðurföll og ræsi. Vatnselgur á götum er mögulegur á öllu Suðurlandi.
Í nótt kólnar og snemma í fyrramálið má búast við suðvestan og vestan 10-18 m/s með dimmum éljum og ört kólnandi veðri. Skyggni og færð getur spillst ört, bæði á fjallvegum og á láglendi.
Kl. 12 í dag var að mestu greiðfært á Suður- og Suðvesturlandi en flughált í Grafningi og á Reykjavegi. Þoka er á Hellisheiði og í Þrengslum.