Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir allt landið í dag, en á Suðurlandi gildir hún frá kl. 14 til kl. 10 í fyrramálið.
Búist er við suðvestan hvassviðri eða stormi og éljum síðdegis og í kvöld.
Hvassast verður með Suðurströndinni og verða aðstæður varasamar fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Útlit er fyrir rigningu eða slyddu í fyrstu, en síðan él og hríðarveður um kvöldið og nóttina.
Gula viðvörunin er í gildi frá kl. 15 í dag til 13 á morgun á Suðausturlandi. Hvassviðri eða stormur, 15-25 m/sek og búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 m/s, einkum í Mýrdal og í Öræfum, sem geta verið hættulegar fyrir vegfarendur á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.
Miklar líkur eru á að veðrið muni hafa áhrif á afhendingu rafmagns þar sem hætta er á eldingum, seltu og ísingu. Þau landssvæði sem líklegast er að verði fyrir truflunum eru Suðurland, Vesturland og Norðurland vestra. RARIK er í viðbragðsstöðu til að bregðast við hugsanlegum bilunum á dreifikerfinu.