Gul viðvörun í kvöld og nótt

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland og Suðausturland sem gildir í kvöld og fyrramálið.

Á Suðurlandi gildir viðvörunin frá klukkan 22 í kvöld og til klukkan 10 að morgni gamlársdags.

Gert er ráð fyrir austan 15-20 m/sek undir Eyjafjöllum með snjókomu og skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Hægari vindur verður annars staðar á Suðurlandi og úrkomuminna, en líkur allhvössum vindi og hríð á Hellisheiði í nótt og fyrramálið.

Á Suðausturlandi gildir viðvörunin frá klukkan 20 í kvöld og til klukkan 9 í fyrramálið. Þar verða verstu aðstæðurnar vestan Öræfa, með snjókomu og skafrenningi.

Hörkufrost á gamlárskvöld
Veður um áramótin verður kalt og yfirleitt rólegt. Þegar líður á gamlársdag þá léttir til og lægir. Á gamlárskvöld verður hægur vindur og léttskýjað sunnan- og vestanlands. Þar sem vindur verður hægur getur loftgæði orðið slæm, sérstaklega á þéttbýlum svæðum. Á nýársdag verður bjart að mestu, frost 5 til 18 stig, kaldast inn til landsins.

Myndin sýnir hitaspá um miðnætti á gamlárskvöld. Frost yfirleitt 8 til 18 stig, og enn kaldara inn til landsins og upp til fjalla.
Fyrri greinJóhann ráðinn íþrótta- og fjölmenningarfulltrúi
Næsta greinSelfoss vann brons á Norden Cup