Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun sem gildir fyrir Suðurland frá hádegi á sunnudag til miðnættis.
Á Suðausturlandi gildir viðvörunin frá kl. 15 á sunnudag og fram til klukkan 4 á mánudagsmorgun.
Gert er ráð fyrir austan stormi, 18-28 m/sek og búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 m/sek, einkum undir Eyjafjöllum og í Öræfum.
Varasamt verður að vera á ferðinni á ökutækjum með aftanívagna, eða ökutæki sem taka á sig mikinn vind.
Snjókoma til fjalla
Einnig má búast við snjókomu til fjalla með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Líklegt þykir að truflanir verði á samgöngum og að vegum verði lokað. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.