Gul viðvörun: Miklar leysingar og vatnavextir

Klakastíflur í Hvítá við Vaðnes. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurlandi

Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi í nótt, frá kl. 23 á laugardagskvöld til kl. 6 á sunnudagsmorgun.

Veðurstofan gerir ráð fyrir suðaustan hvassviðri eða stormi með mikilli rigningu og ört hlýnandi veðri. 

Búast má við miklum leysingum, auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. 

Mikil hálka getur myndast þar sem rignir á klakabunka eða þjappaðan snjó og er mikilvægt að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón vegna rigningar og leysingavatns.

Lögreglan á Suðurlandi biður þá sem stefna á fjöll að vera viðbúna því að ár og lækir bólgni og vöð geti verið viðsjálverð. Jörð er nú frosin og því má búast við að leysigavatn skili sér hratt fram.

Ísstíflur í Hvítá
Ísstíflur hafa myndast í Hvítá vestan Hestfjalls og hefur vatnshæð hækkað fyrir ofan stíflurnar. Í hlákunni á sunnudag eru líkur á að vatnshæð á svæðinu hækki meira og að flæði enn frekar nálægt ánni. Enn fremur er möguleiki á þrepahlaupum þegar ísstíflurnar losna og rennsli árinnar getur aukist töluvert í skamman tíma í kjölfarið.

Þessi mikla úrkoma og leysing mun líklega einnig valda nokkrum vatnavöxtum í ám og lækjum á sunnanverðu landinu, sérstaklega í kringum Mýrdalsjökul.

Fyrri grein„Þurfum að tala meira um dauðann“
Næsta greinDaði Freyr mætir aftur til leiks