Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun sem gildir fyrir Suðurland frá klukkan 3 í nótt til klukkan 7 í fyrramálið.
Það verður suðaustan hvassviðri eða stormur í flestum landshlutum um tíma í nótt og fyrramálið með snjókomu eða slyddu. Síðan snýst í suðvestan hvassviðri fyrripartinn á morgun með éljum.
Á Suðurlandi er gert ráð fyrir suðaustan 18-25 m/sek og snjókomu á meðan viðvörunin er í gildi. Það mun snjóa talsvert og skafa, þannig að skyggni verður lélegt og akstursskilyrði slæm.
Á Suðausturlandi er gul viðvörun í gildi frá klukkan 7 í fyrramálið og fram að miðnætti annað kvöld. Á svæðinu verður suðvestan 13-20 m/sek, éljagangur, skafrenningur og leiðinleg akstursskilyrði.