Gul viðvörun: Snjókoma og lélegt skyggni á laugardagskvöld

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland og Suðausturland sem gildir frá hádegi á morgun, laugardag.

Spáð er austan stormi eða roki syðst á landinu á morgun, frá Eyjafjöllum og austur í Öræfi. Þykknar upp og gengur í austan og norðaustan 20-25 m/sek með snjókomu syðst á landinu. 

Gula viðvörunin gildir frá 12:00 á hádegi á laugardag og fram á nótt á Suðurlandi en frá 16:00 og fram undir morgun á Suðausturlandi.

Undir Eyjafjöllum og í Mýrdal verða mjög snarpar vindhviður við fjöll. Varasamt að vera á ferðinni, einkum fyrir bíla sem taka á sig mikinn vind. Síðdegis er einnig búist við snjókomu og lélegu skyggni og því slæmu ferðaveðri.

Jólamarkaði frestað
Vegna mjög slæmrar veðurspár verður jólamarkaðnum í Vík í Mýrdal frestað til sunnudagsins 8. desember. Þá verður veðrið skaplegt og vonast markaðshaldarar til þess að sem flestir sjái sér fært að mæta í Leikskála kl. 12-17.

Fyrri greinGæsahúð frá Palla og Stuðlabandinu
Næsta greinÞór úr leik í bikarnum