UPPFÆRT KL. 12:01: Veðurspár frá því í morgun hafa ekki gengið eftir, og er lægðarmiðjan nú um 160 km suðaustur af þeirri staðsetningu sem henni var spáð.
Það þýðir að kjarni hríðarinnar sem spáð var eftir hádegi fer fyrir sunnan land.
Veðurstofan hefur því breytt gulri viðvörun í græna og spá um hríð og skafrenning suðvestan- og sunnanlands er því afturkölluð.
Lægðin, með snjó og vindi, stefnir til austurs skammt fyrir sunnan land en hún gæti mögulega haft áhrif á Eyjafjöll og Mýrdal síðdegis.
———-
Eldri frétt:
Snjókomubakkar nálgast nú suðvestanvert landið með allhvössum vindi, skafrenningi og blindu.
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland sem gildir milli kl. 11 og 16. Þá gengur í suðvestan 13-20 m/s með dimmum éljum eða snjókomu og skafrenningi og blindu.
Léleg aksturskilyrði og almennt slæmt ferðaveður verður á Suðurlandi, bæði á Suðurstrandavegi, Hellisheiði og Suðurlandsvegi austur að Mýrdal.
Veðrið versnar milli kl. 10 og 12, lagast svo aftur um tíma, en eftir kl. 14 má aftur búast við að það versni og blint verði með köflum fram undir kvöld.
Klukkan hálf níu í morgun var hálka eða snjóþekja víðast hvar á vegum á suðurlandi og hálka eða krap á suðausturlandi.