Ómar Valdimarsson, sem verið hefur forstjóri Samkaupa undanfarin 13 ár, hefur ákveðið að láta af störfum hjá félaginu. Gunnar Egill Sigurðsson tekur við starfi forstjóra en hann hefur starfað hjá Samkaupum í 20 ár, nú síðast sem framkvæmdastjóri verslunarsviðs.
„Það er spennandi vegferð framundan. Ég hlakka til að fylgja eftir stafrænni þróun og sjálfvirknivæðingu í þjónustu og starfsemi Samkaupa. Þá vil ég auka enn frekar áherslur okkar á samfélagslega ábyrgð og halda áfram að gera Samkaup að frábærum vinnustað,“ segir Gunnar Egill.
Forstjóraskiptin munu eiga sér stað um mánaðamótin mars – apríl, í kjölfar kynningu ársuppgjörs síðasta árs sem var afar gott í rekstri fyrirtækisins þrátt fyrir miklar áskoranir síðustu ára vegna heimsfaraldursins.
Ómar hefur starfað í 26 ár sem stjórnandi hjá Samkaupum, þar af sem forstjóri fyrirtækisins í 13 ár eða frá árinu 2009. Hann hefur stýrt fyrirtækinu í gegnum mikla umbreytingu og vöxt, ekki síst með aukinni sókn á höfuðborgarsvæðinu.
65 verslanir um allt land
Í dag eru verslanir fyrirtækisins á 65 stöðum á landinu og fyrirtækið veltir ríflega 40 milljörðum króna. Þá er framundan opnun 66. verslunarinnar, en í síðustu viku var undirritaður leigusamningur fyrir nýja Nettó verslun sem verður sú níunda á höfuðborgarsvæðinu.
Samkaup reka verslanir víðsvegar um landið undir vörumerkjunum Nettó, Krambúðin, Kjörbúðin og Iceland. Alls starfa 1.500 manns hjá fyrirtækinu í fullu starfi eða hlutastarfi. Fyrirtækið rekur undir vörumerki Nettó stærstu vefverslun landsins með matvörur.