Gunnar furðar sig á 39 klst lögfræðivinnu

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps lá fyrir að samþykkja reikning Lögmanna Suðurlands vegna vinnu við svar til Skipulagsstofnunar er varðaði deiliskipulag fyrir minkabú að Ásum.

Gunnar Örn Marteinsson, fyrrverandi oddviti, lagði fram bókun þar sem hann furðar sig á að lögmaðurinn skuli hafa eytt rúmlega 39 klukkustundum í „svo einfalt mál,“ eins og Gunnar orðar það.

„[Þetta] veit ekki á gott með þann kostnað sem kemur til með að leggjast á sveitarfélagið vegna þessa máls. Það að þessi reikningur skuli lagður fram til samþykktar styður það sem ég hef áður haldið fram í þessu máli,“ segir Gunnar í bókun sinni en hann var mótfallinn því að sveitarfélagið skipti um lögfræðinga.

Meirihlutinn svaraði Gunnari með eftirfarandi bókun.

„Þar sem Skipulagsstofnun gerði athugasemd við bókun meirihluta sveitarstjórnar þegar samþykkt var þann 4. sept. 2012 skipulag vegna minkabús að Ásum og lögfræðingur Landslaga sem undirbjó þá bókun var ekki reiðubúinn að fara að óskum meirihlutans um vinnubrögð við leiðréttingar bókunarinnar var okkur nauðugur sá kostur að leita til annarra lögfræðinga þ.e. Lögmanna Suðurlandi. Að sjálfsögðu hefur það aukinn kostnað í för með sér í þessu einstaka máli, en benda má á að nýir lögfræðingar eru a.m.k. fjórðungi ódýrari og komu málinu athugasemdalaust í gegnum Skipulagsstofnun.“

Reikningurinn var síðan borinn upp til atkvæða og samþykktur af allri sveitarstjórninni nema Gunnari Erni.

Fyrri greinEndanlegur listi Samfylkingarinnar
Næsta greinSelfoss í samstarf við Brentford