„Gott flug, mjúk lending og mikill fögnuður leiðangursmanna," segir pólfarinn Gunnar Egilsson sem lenti á Suðurskautslandinu kl. 20:30 í kvöld.
Eftir að hafa beðið þolinmóðir síðustu daga í Chile eru leiðangursmenn í Moon Regan TransAntarctic leiðangrinum loksins komnir á Suðurskautslandið.
Gunnar og félagar flugu af stað um kl. 15:30 í dag og lentu sem fyrr segir á Union Glacier Blue flugbrautinni um kl. 20:30 í kvöld að íslenskum tíma.
Nú hefst akstur að Suðurpólnum en þess má að lokum geta að prýðilegt veður var á ísröndinni á Suðurskautslandinu í morgun, stilla og -52°C frost.