Gunnar og félagar á Suðurpólnum

Gunnar Egilsson og félagar hans í Moon Regan TransAntarctic leiðangrinum komu á Suðurpólinn fyrr í kvöld eftir sjö daga akstur á ísnum.

Þar með náði leiðangurinn markmiði sínu en í fararbroddi var farartæki sem knúið er lífrænum orkugjafa og er það í fyrsta sinn sem slíkt ökutæki kemur á Suðurpólinn.

Síðustu kílómetrarnir reyndust nokkuð strembnir fyrir leiðangurinn sem glímdi meðal annars við bilanir í sexhjólatrukkunum. Það var þó ekkert sem hinir þaulvönu Íslendingar, Gunnar og félagi hans Valdi, fengu ekki ráðið við.

„Færið var ágætt en hins vegar fara svona hlunkar eins og við ökum á ekkert hraðar yfir harðar ójöfnur og sprungusvæði en skynsemin leyfir. Það var því ekið hægt um og reynt að sjá fyrir hvar væri nógur burður til að fara yfir hverja rifu fyrir sig,“ skrifar Gunnar á Facebook síðu sína.

Eftir nokkra reikistefnu ákvað Gunnar að aka nánast sömu leið og hann ók árið 2005 og komust þeir yfir íshelluna án teljandi vandræða.

„Þegar yfir var komið og öruggt svæði komið undir menn og bíla komu þung og landregin andvörp úr öllum mannskapnum og við tók feginleiki og gleði yfir þessum áfanga. Brátt fór að týra í rannsóknastöðina Amundsson-Scott, við vorum komnir á Suðurpólinn,“ skrifar Gunnar og bætir við: „Ég sver það og Sæunn á örugglega eftir að skamma mig fyrir að hafa hugsað svona en eitt augnblik þá fannst mér ég vera kominn heim, ekki heim > HEIM, en samt, þarna var pól-súlan og gamla stöðin og minnsmerkið um Amundsen og Scott og flöggin, tjaldbúðirnar og dúðað fólk á hlaupum, styðstu leið á milli A og B. Mér þykir vænt um þennan stað.“

Leiðangurinn áætlar að stoppa á Suðurpólnum í sólarhring, hvílast og ditta að farartækjunum áður en haldið verður áfram yfir Suðurskautslandið.

Fyrri greinGríðarlega veglegt ritverk
Næsta greinValur sendi Selfoss á botninn