Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, sigraði örugglega í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg en úrslit prófkjörsins voru tilkynnt í Tryggvaskála laust fyrir klukkan níu í kvöld.
Gunnar Egilsson, framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi, sigraði í mjög harðri baráttu um 2. sætið en jöfn í 3.-4. sæti voru Sandra Dís Hafþórsdóttir, fjármálastjóri og bæjarfulltrúi og Kjartan Björnsson, rakari og bæjarfulltrúi. Kjartan stefndi á 3. sætið en Sandra á 2. sætið.
Ari Björn Thorarensen, forseti bæjarstjórnar Árborgar, stefndi á 2. sætið, sem hann skipaði í síðustu kosningum, en hann hafnaði í 5. sæti. Í 6. sæti varð Magnús Gíslason, sölustjóri.
Röð frambjóðenda í prófkjöri D-listans í Árborg:
1. Ásta Stefánsdóttir með 521 atkvæði
2. Gunnar Egilsson með 223 atkvæði í 1.-2. sæti
3.-4. Sandra Dís Hafþórsdóttir með 306 atkvæði í 1.-3. sæti
3.-4. Kjartan Björnsson með 306 atkvæði í 1.-3. sæti
5. Ari Björn Thorarensen með 379 atkvæði í 1.-5. sæti
6. Magnús Gíslason með 287 atkvæði í 1.-6. sæti
Alls voru 1.340 voru á kjörskrá og kusu 686 eða 51,2%. Auðir og ógildir seðlar voru 44.
Ólafur Hafsteinn Jónsson, formaður kjörnefndar, sagði í samtali við sunnlenska.is að næstu skref yrðu þau að kjörnefndin myndi setjast niður með frambjóðendum og komast að sameiginlegri niðurstöðu varðandi 3.-4. sætið. Kosningin var ekki bindandi, nema í 1. og 5. sætið þar sem atkvæðafjöldinn í þau sæti var meira en 50%.
Ari íhugar framtíð sína
Eftir að úrslitin voru lesin upp stigu efstu frambjóðendur í pontu og þökkuðu fyrir góða og drengilega baráttu í aðdraganda prófkjörsins. Sandra Dís sagði með bros á vör að hún væri „drullufúl“ yfir því að ná ekki 2. sætinu, en hún hafnaði í 3.-4. sæti ásamt Kjartani Björnssyni. Ari Björn sagði að niðurstaðan væri mikil vonbrigði fyrir sig og að næstu dagar hjá sér færu í það að íhuga sína stöðu og framtíð sína í pólitík.