Afurðahæsta sauðfjárbú landsins árið 2018 var bú Eiríks Jónssonar í Gýgjarhólskoti í Biskupstungum að því er fram kemur í skýrslum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.
Er þá miðað við bú sem voru með fleiri en 100 ær á skýrslum, en Eiríkur var með 287 ær. Skilaði hver kind hjá Eiríki 44,3 kíló eftir kind eins og segir í skýrslu RML.
Bændablaðið greinir frá þessu.
Ef litið er til landshluta voru Strandamenn og Vestur- Húnvetningar að jafnaði að skila bestum árangri í afurðum eftir sínar ær.
Í fimmta sæti á listanum er Elín Heiða Valsdóttir í Úthlíð í Skaftártungu með 38,9 kg að meðaltali eftir 361 á.