Gríðarleg aukning hefur verið á umferð við Gullfoss í sumar og er ljóst að sú viðbót bílastæða sem þar kom í vor dugar engan veginn til.
Að sögn Svavars Njarðarsonar eiganda Gullfosskaffi hefur verið mikil aðsókn að svæðinu allt árið og sagði hann nú svo komið að tæpast væri hægt að taka við fleiri gestum í júlí og ágúst án þess að ráðast í miklar breytingar. „Það er erfitt að sjá fyrir sér meiri vöxt á þeim tíma,” segir Svavar.
Fleiri aðilar í Bláskógabyggð hafa verið að skoða möguleika á að setja upp starfsemi við Gullfoss og segist Svavar fagna slíkum áformum en hann telur að það myndi styrkja þá starfsemi sem er fyrir á svæðinu.
„Annars búum við í þessari grein við mikla óvissu núna vegna áforma stjórnvalda um að hækka vaskinn á greinina. Því miður verðum við að halda að okkur höndum í framkvæmdum á meðan svo er,” segir Svavar.