Melskurður hófst á landgræðslusvæðinu í Þorlákshöfn í síðustu viku en vegna einmunatíðar í sumar er hægt að uppskera snemma á svæðinu.
Melgresi hefur verið notað til uppgræðslu í sandinn við Þorlákshöfn en fyrir tveimur árum var hænsnaskítur borinn á svæðið. Það bar afar góða raun og melgresið er nú farið að skila mikilli uppskeru af góðu melfræi.
Sex vélar frá Landgræðslunni hafa unnið að melskurðinum í Þorlákshöfn en að uppskeru lokinni hefjast uppskerustörf í Landeyjum og á Mýrdalssandi.
Á vef Landgræðslunnar kemur fram að mikilvægt sé fyrir stofnunina að fá fræ af melgresi til áframhaldandi landgræðslustarfa. Melgresi er mikið notað í uppgræðslu þegar um erfið sandsvæði er að ræða, svo sem við Bakkafjöru.