Menntaskólanum að Laugarvatni var slitið og 35 stúdentar brautskráðir um síðustu helgi. Sex nýstúdentanna hlutu 9,0 eða hærra í aðaleinkunn og fremst meðal jafningja var Þjóðbjörg Eiríksdóttir frá Gýgjarhólskoti í Biskupstungum með einkunnina 9,89, sem er hæsta einkunn sem hefur verið gefin á stúdentsprófi frá skólanum.
Með þessu afreki sló Þjóðbjörg bræðrum sínum, þeim Ögmundi og Jóni Hjalta, við, en þeir þeir luku stúdentsprófi frá skólanum 2009 og 2011.
Aðrir nýstúdentar sem náðu afburða árangri voru: Daði Geir Samúelsson, frá Bryðjuholti í Hrunamannahreppi (frændi Þjóðbjargar), Þórhildur Hrafnsdóttir frá Ólafsvík, Bjarni Sævarsson frá Arnarholti í Biskupstungum (frændi Þjóðbjargar), Svanhvít Helga Jóhannsdóttir frá Svínafelli í Öræfum og Hafþór Ingi Ragnarsson frá Birtingaholti í Hrunamannahreppi.
Hæstu meðaltalseinkunn í skólanum á þessu ári, 10.0, hlutu þær Þjóðbjörg og Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir í 2. bekk, en hún er frá Ljónsstöðum í Sandvíkurhreppi.
Af stúdentunum 35 brautskráðust 19 af félagsfræðabraut og 16 af náttúrufræðabraut. Fimm nýstúdentar hlutu styrk úr Styrktarsjóði Kristins og Rannveigar: Þjóðbjörg Eiríksdóttir, Daði Geir Samúelsson, Þórhildur Hrafnsdóttir, Bjarni Sævarsson og Svanhvít Helga Jóhannsdóttir.
Júbílantar fjölmenntu að vanda og færðu skólanum og nemendum góðar gjafir. Þeir fögnuðu afmælum sínu með ágætri veislu um kvöldið og snæddu morgunverð í Garði áður en þeir héldu heim á leið daginn eftir.