Hæsta tré landsins nálgast 27 metrana

Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, var á ferðinni á Kirkjubæjarklaustri í byrjun september og mældi hæð trésins sem talið er vera hæsta tré landsins. Tréð er sitkagreni sem gróðursett var árið 1949.

Ýmsir hafa slegið máli á þetta tré undanfarin ár og mældist það 26,1 m á hæð um miðjan ágúst á síðasta ári. Ekki skal sagt til um hvort tréð hækkaði mikið haustið 2014 eftir að það var mælt en í mælingum 8. september 2015 reyndist það vera um 27 m hátt.

Skekkjumörk eru meiri á þessari mælingu en á mælingu síðasta árs sem var gerð með nákvæmara tæki. Samt sem áður má fullyrða að hæð þess er að nálgast 27 metra múrinn eftir gott vaxtarsumar. Fleiri tré í skóginum voru mæld og reyndust a.m.k. tvö sitkagreni til viðbótar vera komin yfir 25 metra hæð og fjöldi trjáa yfir 20 metra hæð.

Eitt af gildari sitkagrenitrjánum á Kirkjubæjarklaustri var einnig mælt. Var það ríflega 25 metrar á hæð og 65 cm í þvermál í brjósthæð. Gera má ráð fyrir að slíkt tré innihaldi vel á þriðja rúmmetra viðar og að í því sé bundið hátt í tonn kolefnis (C). Þá hefur það bundið á þriðja tonn af koltvísýringi (CO2).

Á heimasíðu Skógræktarinnar má sjá fleiri myndir af trénu.

Fyrri greinSigurbjörn Árni ráðinn skólameistari
Næsta greinEiríkur ráðinn markaðs- og kynningarfulltrúi