Búast má við miklu frosti í sumarhúsabyggðunum í uppsveitum Suðurlands á morgun og á föstudag.
Einar Sveinbjörnsson hjá Veðurvaktinni segir frostið geta orðið 15 til 22 stig frá því seinnipartinn á morgun fimmtudag og fram á föstudag, er tekur að hlýna á ný.
Gríðarlegur fjöldi sumarhúsa er á Suðurlandi og mikilvægt er að eigendur þeirra séu meðvitaðir um hættuna á því að frjósi í lögnum. Lítill snjór á jörðu eykur svo enn frekar áhættuna.
Í fréttatilkynningu frá VÍS segir Sigrún A. Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í forvörnum, að vatnstjón í sumarhúsum verði oft mjög alvarleg, einkum ef heitt vatn lekur.
“Oft uppgötvast skaðinn ekki fyrr en dögum eða vikum eftir að leki hófst. Í verstu tilfellunum hafa hús og innbú gjöreyðilagst. Vatnsvarnir eru því gríðarlega mikilvægar í sumarhúsum. Ef hús er hitað upp með vatni er öruggast að hafa lokað hringrásarkerfi. Muna þarf að skrúfa ávallt fyrir neysluvatn þegar hús er yfirgefið og tæma lagnir t.d. með því að skrúfa frá krana inni þar til hættir að renna,” segir Sigrún og bætir við að vissara sé fyrir sumarhúsaeigendur að huga að híbýlum sínum í tengslum við þennan frostakafla og minnast þess að oft byrjar ekki að leka fyrr en hlýna tekur á ný.