Fallið hefur verið frá fyrirhugaðri lokun heilsugæslustöðvarinnar á Hellu en Velferðarráðuneytið hefur staðfest leiðréttingu á fjárveitingu til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Leiðréttingin á fjárveitingu til stofnunarinnar er umfram það sem kemur fram í nýsamþykktum fjárlögum fyrir árið 2012. Í bréfi frá HSu til sveitarstjórna í Rangárþingi kemur fram að þess vegna verði hægt að draga úr þeirri útgjaldalækkun, sem frumvarp til fjárlaga gerði kröfu til. Meðal annars verður því hægt að falla frá áður fyrirhugaðri lokun heilsugæslustöðvarinnar á Hellu.
Þrátt fyrir leiðréttinguna þarf engu að síður að draga verulega úr útgjöldum HSu. Því verður ekki komist hjá endurskipulagningu á þjónustu stofnunarinnar og áfram verður unnið að henni í sem bestu samráði við stjórnendur og starfsmenn stofnunarinnar og aðra hagsmunaaðila.