Í fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir að draga úr útgjöldum framhaldsskólanna. Stór hluti lækkunarinnar skýrist af því að hætt verður við stækkun á verknámshúsinu Hamri við Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Gert er ráð fyrir að draga úr útgjöldum framhaldsskólanna um 642 milljónir króna á milli ára. Í frumvarpinu segir að lækkunin skýrist af tveimur tilfellum.
Annars vegar 367,5 milljóna króna lækkun til að mæta markmiðum ríkisstjórnarinnar um samdrátt í ríkisútgjöldum og hins vegar verður hætt við stækkun á verknámssaðstöðu við Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem í síðustu fjárlögum var gert ráð fyrir að kostuðu 247,7 milljónir. Vísir greinir frá þessu.
Gert var ráð fyrir að framkvæmdir við verknámshúsið myndu hefjast snemma á næsta ári og átti þeim að ljúka um áramótin 2014-15. Sveitarfélögin á Suðurlandi höfðu safnað 140 milljónum króna í sjóð sem safnað var í vegna byggingarinnar. Heildar byggingarkostnaður er áætlaður 540 milljónir króna.
Hönnunarsamkeppni vegna hússins fór fram fyrr á þessu ári og voru úrslit í keppninni tilkynnt í júní.