Lögreglan á Hvolsvelli fékk ábendingu í dag um hættu sem skapast hefur við Gígjökul á leið inn í Þórsmörk en þar hefur myndast nýtt lón við jökulsporðinn.
Menn sem nýlega voru þarna á ferð tóku eftir að lítið lón hefur myndast við jökulsporðinn. Nú er talsverð umferð þarna og hvetur lögreglan fólk sem fer þarna um að fara mjög varlega. Viðvörunin á við um allt gamla Lónstæðið sem er meira og minna ís hulinn þunnu malarlagi.
„Ef menn fara fram á bakka „nýja lónsins“ og falla í vatnið þá er glæra ís neðan við vatnsborðið. Litlar líkur er á því að maður nái að krafla sig upp úr slíku nema vopnaður broddum og ísöxi. Menn eru venjulega ekki vopnaðir slíku,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.
Að hafa langan spotta eða línu er það sem helst er til bjargar ef illa fer. „Best er þó að koma sér ekki í vandræði,“ segir lögreglan.