Farvegur jökulárinnar Sveðju, austan við Hágöngulón, hefur breyst mikið eftir að stórflóð fór niður ána í byrjun júlí í fyrra.
Fyrir skömmu fóru Gunnar Njálsson og Guðmundur Árnason, landverðir í Nýjadal á Sprengisandi, ásamt félögum úr björgunarsveitinni Þingey í Þingeyjarsveit að Sveðju sem kemur úr Köldukvíslarjökli í Vatnajökli og fellur í Hágöngulón.
Í byrjun júlí í fyrra kom mikið flóð niður þessa á og hækkaði Hágöngulón um 70 sm á einni nóttu. Jarðvísindamenn telja að þá hafi hlaupið undan jöklinum í kjölfar lítils eldgoss, sem ekki hafði náð að brjótast upp úr jökli.
Gunnar segir að farvegur Sveðju hafi breyst mikið síðan í flóðinu í fyrra. „Fyrir hlaupið flæmdist Sveðja um miklar áreyrar, en nú rennur hún í einum, djúpum farvegi og er gjörsamlega ófær akandi og gangandi fólki. Þetta er á hinni fornfrægu Bárðargötu, sem liggur frá Vonarskarði suður að Jökulheimum. Það er hættulegt að vera nálægt bökkum Sveðju,“ segir Gunnar, „sífellt er að hrynja úr þeim og straumurinn er gífurlegur.“