Fjörutíu ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi. Af þeim voru 36 erlendir ferðamenn.
Brotin voru flest á Suðurlandsvegi, þar af sextán í nágrenni Víkur og sjö í Öræfum en einnig á veginum um Lyngdalsheiði og á Biskupstungnabraut.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að flytja of þungan farm, annar allt að 10% yfir leyfðri þyngd en hinn allt að 20% yfir leyfðri þyngd. Sektarflokkum þessara mála er skipt með þessum hætti þannig að lægsti flokkurinn er að 10% næst 11 til 20% og svo 21 til 30% en þeir sem fara yfir þá þyngd sæta ákæru fyrir brot sín. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að háar sektir eru við þessum brotum enda vex tjón á vegi í veldishlutfalli við þá þyngd sem ökutæki flytur.
Í dagbókinni kemur einnig fram að sex ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis. Í einu tilvikanna voru tveir handteknir eftir að hafa ekið bifreið sinni á vegrið við veginn yfir Sámstaðamúla í Þjórsárdal og fest hana þar. Ekki urðu slys á fólki við þetta.
Þá voru tveir handteknir grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum undir áhrifum fíkniefna.