Hægt að gera margt skemmtilegra við peningana en að borga sektir

Lögreglan við Gígjukvísl. Mynd úr safni. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurlandi

Alls voru 613 verkefni færð til bókar hjá lögreglunni á Suðurlandi í síðustu viku. Af þeim voru 57 hraðakstursbrot og segir í dagbók lögreglunnar að ljóst sé að einhverjir hafi þurft að skera niður í gæðum sumarleyfisferðarinnar vegna þeirra útgjalda sem hraðakstursbrotið hafði í för með sér.

Það er nefnilega hægt að gera margt skemmtilegt fyrir 50 til 80 þúsund krónur sem eru algengustu sektartölur vikunnar en þó sjást tölur sem nálgast 200 þúsundin. „Spörum þarna og drögum um leið úr slysahættu,“ segir lögreglan, sem bendir einnig á að þegar bíl er ekið á 90 km/klst hraða fer hann um 25 m/sek. Það sé því full ástæða til að hafa athyglina á veginum við akstur. Lögreglan kom þessum upplýsingum meðal annars til ökumanns sem var kærður fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar í liðinni viku og hann fékk einnig reikning upp á 40 þúsund krónur.

Í dagbókinni kemur einnig fram að tveir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um að þeir væru ölvaðir við akstur og aðrir tveir voru stöðvaðir vegna gruns um að þeir væru undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.

Þá voru 17 stór ökutæki tekin til sérstakrar vegaskoðunar umferðareftirlitsmanna. Af þessum tækjum var eitt boðað til frekari skoðunar á skoðunarstöð vegna athugasemdar við ökurita þess.

Fyrri greinUmferðin gekk vel um helgina
Næsta greinStokkseyringar sterkari á svellinu