Tugir grunnskólabarna úr Landeyjunum komast ekki í Hvolsskóla á Hvolsvelli í dag, þar sem Þjóðvegur 1 er lokaður við Hvolsvöll.
„Ég var kominn með nokkur börn í bílinn í morgun þegar ég fékk símtal frá skólastjóranum um að þjóðveginum hefði verið lokað. Hér er fimm stiga hiti og hægur vindur og allir vegir auðir. Ég má aka um alla vegi í Landeyjunum, en ekki fara upp á Suðurlandsveg. Það verður að finna lausnir á þessu og kenna þessum börnum yfir sumartímann ef þetta á að vera framhaldið á veturna,“ sagði Sigurður Jónsson, skólabílstjóri í Austur-Landeyjum, í samtali við sunnlenska.is
„Það er slæmt veður undir Eyjafjöllunum en ekkert að veðrinu hérna vestar. Þetta bitnar ekki bara á skólabörnunum, það er fullt af fólki hér sem kemst ekki til vinnu auk þess sem ferðaþjónustuaðilar finna fyrir þessu,“ bætir Sigurður við.
Þar sem veðurspáin var ekki góð fyrir daginn var ákveðið í gær að nemendur Hvolsskóla sem búa austan Markarfljóts yrðu ekki sóttir núna í morgun. Um 240 nemendur eru í Hvolsskóla og kemur 47% þeirra úr dreifbýlinu í kringum Hvolsvöll.