Hæsta jólaskreyting landsins?

Jólamastrið á Hvolsvelli ber hátt við himinn og skreytingin kemur vel út. Ljósmynd/Aðsend

Fjarskiptamastrið á Hvolsvelli hefur heldur betur fengið jólalega upplyftingu því það hefur verið skreytt með jólaljósum og telja heimamenn fullvíst að um sé að ræða hæstu jólaskreytingu landsins, en mastrið er 45 metra hátt.

„Jólamastrið sést víðsvegar frá og erum við afar ánægð með útkomuna,“ segir Árný Lára Karvelsdóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþings eystra.

Það var Þóra Björg Ragnarsdóttir, aðstoðarmaður skipulagsfulltrúa, sem fékk þessa góðu hugmynd að setja jólaljós á mastrið og eftir að hafa fengið leyfi og styrk frá Mílu fyrir verkefninu var hafist handa. Sveitarfélagið samdi við Björgunarsveitina Dagrenningu um uppsetningu og féll liðsmönnum sveitarinnar ekki verk úr hendi frekar en fyrri daginn og verkið var klárað á ótrúlega stuttum tíma.

Það er vert að kíkja á Hvolsvöll og skoða skreytinguna sem kemur verulega vel út á þessu helsta einkenni Hvolsvallar.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinFyrsti áfangi nýrrar Hamarshallar boðinn út á næstu dögum
Næsta greinPakkar óskast undir jólatréð á bókasafninu