Hætta á svörtum ís í kvöld

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Vegagerðin varar við hættunni á að svartur ís, eða glæraísing, geti myndast á vegum suðvestanlands í kvöld.

Vegir á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum eru yfirleitt blautir eftir slydduél dagsins. Þegar léttir til með hægum vindi síðdegis kólnar aftur. Varað er við glæraísingu sem myndast víða í kvöld, eða frá því um kl. 18.

Klukkan þrjú í dag var víðast greiðfært um Suðurland en þó eru hálkublettir undir Eyjafjöllum og hálka á Reynisfjalli við Vík. Hálkublettir eru á milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs og í Öræfasveit.

Veðurstofan gerir ráð fyrir norðlægri átt, 5-13 m/sek í kvöld og nótt. Vaxandi norðaustanátt annað kvöld og þykknar upp. Frost 0 til 5 stig til landsins, en um frostmark við ströndina.

Fyrri greinEldsupptökin líklega af mannavöldum
Næsta greinNöfn fólksins sem lést