Hafþór krossgátumeistari Suðurlands

Hafþór Gestsson á Eyrarbakka er krossgátumeistari Suðurlands 2011 eftir æsilegt einvígi við Bjarkar Snorrason í Brattsholti á Stokkseyri.

Einvígi Hafþórs og Bjarkars fór fram á sumarblóti Hrútavinafélagsins Örvars, sem haldið var á Stokkseyri í kvöld. Kepptu þeir um það hvor væri fljótari að ráða krossgátu eftir Hafliða Magnússon á Selfossi sem hann samdi sérstaklega fyrir keppnina í kvöld. Leysti Hafþór krossgátuna með glæsibrag á 9 mínútum og sigraði Bjarkar sem þurfti lengri tíma.

Fjölmargir gestir í salnum fengu einnig að spreyta sig á krossgátunni en enginn kláraði á þeim 15 mínútum sem gefnar voru. Hafþór telst þar með réttilega krossgátumeistari Suðurlands og jafnvel Íslandsmeistari því ekki er vitað að öðrum keppnum í krossgátulausnum.

Í verðlaun voru sérstakur skraut-spegill, „Krossgátuspegillinn“, með merki Hrútavinafélagsins og bæjarmerkjum Stokkseyrar og Eyrarbakka eftir hagleiksmanninn Rúnar Ásgeirsson á Stokkseyri.

Fjölmenni var á Sumarblótinu sem fór hið besta fram og ekkert drukkið sterkara en blávatn.

Fyrri greinÍ 3. sæti í sinni fyrstu keppni
Næsta greinFyrsti sigur Selfyssings í ralli