Veiðitímabilið í Ölfusá hófst formlega í gærmorgun klukkan sjö þegar Hafþór Snorrason, Selfyssingur ársins með meiru, renndi fyrstur manna fyrir lax.
Í þriðja kasti nældi Hafþór í fjögurra punda nýgengna hrygnu og þar með fyrsta lax sumarsins í ánni. Laxinn fékkst á maðk, af pallinum í Víkinni. Þetta var maríulax Hafþórs og var hann að vonum ánægður með fenginn.
Þrátt fyrir góða byrjun þá fór nú svo að laxinn hans Hafþórs var eina veiði dagsins en þó nokkuð sást af fiski í ánni.