Fyrir skömmu ákváðu landeigendur í Laugardælum að láta skoða möguleika á að virkja Ölfusá við Efri-Laugardælaeyju.
Að sögn Haraldar Þórarinssonar, bónda í Laugardælum, hittist svo á að um leið eru að koma fram önnur áform um að virkja Ölfusá og þá í tengslum við brúargerð yfir sömu eyju. Hann sagði að hvorki Vegagerðin né veitustofnanir hafi rætt við þá um afnot af eyjunni. Haraldur sagðist hafa óskað eftir fundi með Guðmundi Elíassyni, framkvæmdastjóra framkvæmda- og veitusviðs Árborgar, til að fara yfir málið.
Haraldur segir að ekki sé langt síðan þeir ákváðu að láta skoða möguleika á að setja litla rennslisvirkjun við Laugardælaeyju sem væri mun smærri í sniðum er þau áform sem hafa verið gerð opinber.
,,Það er djúp sprunga meðfram eyjunni þar sem fer um óhemju vatnsmagn. Við vildum láta skoða hvort mögulegt væri að setja þar rennslisvirkjun sem vitaskuld væri mun smærri í sniðum en þau áform sem nú eru uppi og hefði til dæmis engin áhrif á fiskgegnd,“ sagði Haraldur. Svo vildi til að þeir höfðu samband við sömu verkfræðistofu og nú hefur tekið að sér að skoða stærri virkjunina.
Haraldur sagði að það sem hann hefði mestar áhyggjur af varðandi þau áform sem nú eru uppi væri hvergi tryggt að fiskgegnd yrði ekki raskað í Ölfusá og á vatnasvæðum fyrir ofan hana. Hann sagði að þeirra besti veiðistaður væri um 500 metrum ofan við eyjuna en þar hafa Laugardælabændur lagt út net áratugum saman.
Einnig sagðist hann eiga eftir að sjá hvernig menn myndu tryggja það að fiskur færi um ánna en um væri að ræða gjöfular veiðiár, svo sem Stóru-Laxá, Sogið, Brúará og fleiri. Haraldur sagðist halda að mikilvægt væri að ná sátt um virkjunina við veiðiréttarhafa í ánni enda væru miklir hagsmunir í húfi.