Aðgerðum lögreglu við skönnun á botni Ölfusár neðan Ölfusárbrúar í dag er nú lokið.
Skönnunin er liður í leitinni að bifreið Páls Mars Guðjónssonar sem hafnaði í Ölfusá að kvöldi 25. febrúar síðastliðins.
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, sagði í samtali við sunnlenska.is að nú taki við frekari úrvinnsla gagna en skönnunin í dag er framhald aðgerðanna þann 16. mars síðastliðinn þegar árbotninn var fyrst skannaður með fjölgeislamælingum.
„Búnaðurinn sem við notum í dag er nákvæmari en þetta er í fyrsta skipti sem þessi tæki eru notuð við rannsókn sem þessa. Það eru góðar aðstæður, lítið vatn í ánni og hið besta veður. Úrvinnslan mun taka einhvern tíma en við vonumst til þess að hafa náð að kortleggja ánna að mestu leiti hér fyrir neðan brú,“ sagði Oddur.
Í dag var notaður nýr fjölgeislamælir og hliðarhljóðbylgjutæki og var fylgt eftir vísbendingum sem fundust við leitina þann 16. mars.
Í tilkynningu frá lögreglunni þakkar lögreglan á Suðurlandi björgunarsveitarmönnum, lögreglumönnum sérsveitar ríkislögreglustjóra, starfsmönnum Landhelgisgæslu, fulltrúa Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum, Brunavörnum Árnessýslu og öllum þeim sem að aðgerðunum hafa komið fyrir þeirra frábæra starf.