Sveitarfélagið Árborg hefur selt fasteignir fyrir 96 milljónir króna á þessu ári. Tveir kaupsamningar voru undirritaðir um helgina.
Í dag var undirritaður samningur við Stokkseyrarkirkju um kaup á Hafnargötu 10 á Stokkseyri og í gær var gengið frá samningi um kaup á húsnæði fyrir Björgunarfélag Árborgar. Fyrr á þessu ári seldi sveitarfélagið fasteign að Austurvegi 52 á Selfossi, þar sem áður var rekin slökkvistöð.
„Þessir samningar eru í anda þess sem ákveðið hefur verið í rekstri sveitarfélagsins þar sem húsnæði sem er nýtt af öðrum aðilum en sveitarfélaginu sjálfu er selt. Skuldsetning sveitarfélagsins náði hámarki árið 2009 þegar hún var 209% af tekjum en nú er stefnt að því að þetta hlutfall lækki talsvert á yfirstandandi ári,“ segir í fréttatilkynningu frá Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Árborgar.
Nýlega var samþykkt samhljóða í bæjarráði að taka saman yfirlit yfir allar söluhæfar eignir og halda markvisst áfram þessu starfi.