Hafa sjaldan verið eins ögrandi

Aðdáendur dagatals sjúkraflutningamanna í Árnessýslu geta andað léttar því dagatalið fyrir árið 2012 kemur út í þessari viku og hefur sjaldan verið eins ögrandi.

„Eins og undanfarin ár munum við nota ágóða af sölunni til að styrkja fjölskyldu langveiks barns, og einnig í styrktar-og áfallasjóð sjúkraflutningamanna í Árnessýslu,“ segir Stefán Pétursson, sjúkraflutningamaður, í samtali við sunnlenska.is. „Ef salan verður góð í ár er jafnvel hugsanlegt að við styrkjum tvær fjölskyldur.“

Sjúkraflutningamennirnir hafa gefið út dagatal í nokkur ár og hefur það alltaf vakið mikla athygli og nánast verið slegist um upplagið.

Að sögn Stefáns er ekki sérstakt þema á nýja dagatalinu en þó má geta þess að menn og konur sýna talsvert af holdi á myndunum, sem þó eru allar innan siðsamlegra marka.

Kaupendur geta nálgast dagatalið hjá sjúkraflutningamönnunum sjálfum en þeir munu t.d. selja það sjálfir í verslunum á Selfossi á næstu dögum.

Fyrri greinBjörgun ferðamannsins gekk vel
Næsta greinTilefnislaus kjaftshögg