Hafa verulegar áhyggjur af samgönguáætlun

Bæjarráð Hveragerðis lýsir yfir verulegum áhyggjum og vonbrigðum með nokkur atriði í samgönguáætlun fyrir árin 2012 til 2022.

Nefndasvið Alþingis óskaði eftir umsögn Hveragerðisbæjar vegna tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun og var fjallað um málið á síðasta fundi bæjarráðs.

Bæjarráð lýsir yfir ánægju með að í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2012-2022 skuli vera gert ráð fyrir áframhaldandi framkvæmdum við breikkun Suðurlandsvegar frá Reykjavík til Selfoss.

Hinsvegar lýsir bæjarráð yfir verulegum áhyggjum og vonbrigðum með nokkur atriði í áætluninni. Einnig undrast bæjarráð að ekkert virðist vera fjallað um þennan hluta Hringvegarins í tillögu að samgönguáætlun til næstu fjögurra ára þrátt fyrir að í drögum að langtímaáætlun sé talað um framkvæmdir við veginn á því tímabili.

„Varðandi Hringveg á milli Selfoss og Hveragerðis er bráðnauðsynlegt að fara í 2+2 veg á þeim kafla sem allra fyrst þar sem þarna er um einn hættulegasta vegarkafla landsins að ræða,“ segir í bókun bæjarráðs. „Í samgönguáætlun er talað um að fara í breikkun í 2+1 veg á þessum kafla á öðru og þriðja tímabili, þ.e. ekki fyrr en 2015-2022 sem er alltof seint. Fara verður í breikkun þessa kafla á fyrsta tímabili áætlunarinnar eða í allra síðasta lagi á öðru tímabilinu og alls ekki er ásættanlegt að hafa þarna 2+1 veg enda hefur slíkt aldrei verið kynnt fyrir sveitarfélögum á svæðinu svo vitað sé.“

Í áætluninni er talað um að breikka veginn frá Hellisheiðarvirkjun að Hveragerði í 2+1 veg á fyrsta og öðru tímabili. Bæjarráð segir að tímasetningin sé ásættanleg en samkvæmt því sem kynnt hefur verið fyrir sveitarfélögunum á vegurinn frá Kambabrún að Hveragerði að vera 2+2 vegur og ítrekar bæjarráð að við það verði staðið.

Jafnframt undrast bæjaráð það að ekkert virðist vera fjallað um Hringveginn frá Vesturlandsvegi að núverandi tvöföldun austan Lögbergsbrekku en ekki er síður vanþörf á að sá kafli verði breikkaður á næstu árum

Fyrri greinFramkvæmdir við Hamarshöllina komnar á fullt
Næsta greinKosið á ný í hverfisráð