Hafði lengi dreymt um að opna sitt eigið apótek

Harpa Viðarsdóttir og Eysteinn Arason fyrir aftan afgreiðsluborðið í apótekinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í sumar opnaði Apótek Suðurlands á Selfossi. Er það eina einkarekna apótekið á Suðurlandi.

„Við erum gamlir vinnufélagar og höfum öll unnið í apótekum á Suðurlandi. Okkur hafði lengi dreymt um að opna okkar eigið apótek á Selfossi en Selfoss er nokkurskonar miðpunktur hjá okkur. Við erum búsett á Hvolsvelli, í Bláskógabyggð og Reykjavík,“ segir Harpa Viðarsdóttir, lyfsali í Apóteki Suðurlands, í samtali við sunnlenska.is.

Apótek Suðurlands er í eigu Hörpu og þeirra Eysteins Arasonar lyfjafræðings og Guðmundu Þorsteinsdóttir lyfjatæknis.

Draumur sem varð að veruleika
„Eysteinn stóð á tímamótum í sinni vinnu og kom að máli við okkur Guðmundu og spurði hvort við vildum taka þátt í þessu ævintýri með honum, þá var draumurinn allt í einu ekki svo fjarlægur og eftir nokkra umhugsun var ákveðið að slá til. Þetta er auðvitað miklu auðveldara þegar við erum fleiri saman,“ segir Harpa.

„Við opnuðum hurðina 14. júní síðastliðinn en auglýstum ekki. Við vildum fara hægt af stað til að ná tökum á tækninni sem fylgir svona rekstri. Við opnuðum svo formlega viku seinna, þann 21. júní,“ segir Harpa.

Þakklát fyrir góðar viðtökur
„Viðtökurnar hafa verið ótrúlega góðar og við erum mjög þakklát fyrir hversu vel fólk tekur okkur og fyrir hve mikla hvatningu við fáum og ætlum að reyna að standa okkur vel, bæði í þjónustu og verðlagningu,“ segir Harpa.

„Undanfarið hefur lyfjaskortur mikið verið til umfjöllunar og ekki að ástæðulausu. Við höfum ekki farið varhluta af því frekar en önnur apótek en höfum reynt að útvega sambærileg lyf og undanþágulyf lyf eftir bestu getu, skipta upp pakkningum og svo framvegis sem stundum seinkar afgreiðslu. Fólk sýnir mikla þolinmæði og skilning þó ástandið sé alls ekki boðlegt,“ segir Harpa.

Mikil fákeppni í smásölu lyfja
Guðmunda segir að mesti munur á Apóteki Suðurlands og öðrum apótekum á Suðurlandi er að Apótek Suðurlands er sjálfstætt starfandi apótek og hvorki hluti af lyfjakeðju né annarri verslunarkeðju.

„Eigandinn er á staðnum og fólk veit við hvern það er að eiga viðskipti. Fákeppni hefur ríkt í smásölu lyfja, ekki síst á Suðurlandi og lyfjafræðingum hefur sviðið að fylgjast með hvernig keðjurnar hafa smám saman næstum alveg yfirtekið lyfjadreifingu og sölu í landinu.“

Apótek Suðurlands er í gamla pósthúsinu við Austurveg 24. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fjölskyldufyrirtæki
„Með því að stofna okkar eigið apótek erum við að reyna að sporna gegn þeirri þróun og skapa okkur skemmtilegan vinnustað. Selfoss og nágrannabyggðir eru ört vaxandi og blómstra svo við teljum að það sé full þörf á þriðja apótekinu. Það að eigendur séu til staðar tryggir stuttar boðleiðir og góða þjónustu. Með hóflegri álagningu ætlum við að tryggja viðskiptavinum okkar eins hagstætt verð og kostur er,“ segir Harpa.

„Annars er þetta sannkallað fjölskyldufyrirtæki, Eysteinn og Haukur, maður Guðmundu, sáu um alla smíðavinnu, Hrafnhildur dóttir Guðmundu vinnur hjá okkur og er í lyfjafræði, Stefanía Eysteinsdóttir hefur séð um markaðs- og auglýsingamál, Einar Eysteinsson um tölvumál og sonur minn, Björn Heimir Önundarson teiknari hefur teiknað fyrir okkur. Við leggjum áherslu á að vera með vel menntað og reynt starfsfólk, samanlagður starfsaldur okkar núna er mjög hár,“ segir Harpa.

Staðsetningin góð
Harpa segir að þau hafi verið heppin með húsnæði. „Staðsetningin er góð, næg bílastæði og inngangurinn var endurnýjaður í sumar samkvæmt ströngustu reglum um aðgengi og hefur fólk lýst ánægju sinni með það. Eigi einhverjir erfitt með að sækja lyfin sín í apótekið bjóðum við upp á fría heimsendingu.“

„Öryrkjar og eldri borgarar fá afslátt af lausasölulyfjum og vörum í verslun. Einnig gefum við afslátt af ýmsum sýkla-, verkja- og svefnlyfjum sem eru lyfseðilskyld en Sjúkratryggingar Íslands niðurgreiða ekki. Við bjóðum upp á lyfjaskömmtun, bæði vélskömmtun og handskömmtun í lyfjabox. Handskömmtunin verður án endurgjalds. Við mælum einnig blóðþrýsting endurgjaldslaust og veitum upplýsingar og ráðgjöf um lyf og lyfjanotkun. Auk lyfja og hjúkrunarvara er gott úrval af vítamínum, fæðubótarefnum og hreinlætisvörum í apótekinu og nú í september tókum við við sölu á snyrtivörumerkinu Artdeco. Við hlökkum til vetrarins og vonumst til að sjá sem flesta,“ segir Harpa að lokum.

Guðmunda Þorsteinsdóttir, Eysteinn Arason, Hanna Valdís Garðarsdóttir og Harpa Viðarsdóttir í Apóteki Suðurlands.
Fyrri greinLögreglan stöðvaði próflausan flutningabílstjóra
Næsta grein„Undirtektirnar framar öllum væntingum“