Hafna eignarnámi

Hrunamannahreppi hefur verið stefnt að nýju vegna Bakkatúnsmálsins svokallaða en sveitarfélagið rekur nú þegar eitt mál fyrir Hæstarétti vegna fyrirætlanna um eignarnám þar.

Á síðasta sveitarstjórnarfundi kynnti Ragnar Magnússon, oddviti, stefnu frá eigendum Reykjabakka, bræðrunum Reyni, Þresti og Einari Jónssonum, vegna ákvörðunar hreppsnefndar að taka land eignarnámi fyrir Bakkatúnsveg sem fellur innan deiliskipulagsmarka Reykjabakka.

Meirihluti hreppsnefndar ákvað að fela sveitarstjóra ásamt lögmanni sveitarfélagsins að taka til varna í málinu enda málið samtengt máli eiganda Útlagans gegn sveitarfélaginu.

Tveir hreppsnefndarfulltrúar, þau Esther Guðjónsdóttir og Gunnar Þór Jóhannesson, bókuðu sem fyrr að þau vildu að eignarnámsmálið verði dregið til baka því þau telja að aðrar lausnir séu til varðandi Bakkatúnsveginn.

Að sögn Ragnars Magnússonar hyggst sveitarstjórn halda sínu striki í málinu og að þessi nýja stefna lúti aðeins að örlitlum skika sem fari undir veginn.

Fyrri greinGengið að Brúsastaðarafstöðinni
Næsta greinKári Steinn og Valgerður sigruðu