Stórbruni varð á Selfoss í kvöld þegar eldur kom upp í Hafnartúni, stóru einbýlishúsi í miðbæ Selfoss. Neyðarlínan fékk boð um eldinn klukkan 19:37 og vinnur allt tiltækt lið frá Brunavörnum Árnessýslu að því að ráða niðurlögum eldsins.
Mikinn reyk leggur frá vettvangi og eru íbúar sem búa suðvestan við bæjargarðinn og í miðbænum beðnir um að loka gluggum.
Lögreglan beinir því einnig til fólks að gefa viðbragðsaðilum rými til að athafna sig og virða lokanir.
Hafnartún er eitt af eldri húsum bæjarins, á tveimur hæðum með kjallara og háalofti. Þegar að var komið virtist eldurinn vera á efri hæð hússins og logaði út um alla glugga.
Mikill mannfjöldi er í miðbænum og biðja Brunavarnir Árnessýslu fólk um að halda sig fjarri til að trufla ekki störf viðbragðsaðila.
Ekki var föst búseta í húsinu síðustu ár en til stóð að gera það upp og skapa því veglegan sess í nýja miðbæjarskipulaginu.










