Hagnaður af rekstri Hveragerðisbæjar

Hagnaður varð af rekstri Hveragerðisbæjar árið 2015 hvort sem litið er til samantekins rekstrarreiknings A og B hluta eða til sveitarsjóðs eingöngu.

Skuldahlutfall sveitarfélagsins er 104,81% af tekjum sé tekið tillit til lífeyrisskuldbindinga sem falla til eftir 15 ár eins og heimilt er að gera samkvæmt lögum.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, segir í pistli á heimasíðu bæjarins að það megi teljast harla gott að þrátt fyrir miklar launahækkanir á árinu 2015 að sveitarfélagið skili jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Hagnaður af samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var 19,9 milljónir króna en rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs (A-hluta) er jákvæð um 8 milljónir króna.

Veltufé frá rekstri A og B hluta nam um 198,5 milljónum króna eða 7,6 % af heildartekjum. Handbært fé frá rekstri var 185 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir 216,8 milljónum. Aldís segir þessa stærð mjög mikilvæga þar sem hún sýnir þá peningamyndun sem varð hjá sveitarfélaginu á árinu. Eðlilegt sé að gera ráð fyrir að þessi stærð sé hærri en næsta árs afborgun langtímalána til þess að sveitarfélagið þurfi ekki að fjármagna rekstur eða endurgreiðslu lána með nýju lánsfé eða sölu eigna.

Ef rekstur sveitarfélagsins á árinu 2016 verður svipaður og á árinu 2015 þá mun handbært fé frá rekstri verða nægjanlegt til þess að greiða fyrir áætlaðar afborganir lána og afgangur verður til fjárfestinga.

Fjárfestingar á árinu 2015 námu 103 milljónum króna. Afborganir langtímalána og afborganir leiguskuldar vegna bæjarskrifstofu, bókasafns og upplýsingamiðstöðvar í Sunnumörk nema 154,9 milljónum en tekin voru ný 70 milljón króna langtímalán.

Í árslok er hlutfall skulda af tekjum 114,8%. Ef frá er dregin lífeyrisskuldbinding sem fellur til eftir 15 ár eða síðar er skuldahlutfallið 104,81%. Samkvæmt fjármálareglum sveitarfélaga ber að halda skuldum sveitarfélaga innan við 150% af tekjum.

Í pistli sínum þakkar Aldís stjórnendum og starfsmönnum sveitarfélagsins þá miklu og óeigingjörnu vinnu sem þessi góði hópur leggur af mörkum fyrir bæjarfélagið. „Án starfsmanna sem allir eru af vilja gerðir til að þjónusta íbúa sem allra best gætum við ekki litið jafn stolt yfir sviðið og við gerum nú,“ segir Aldís.

Fyrri greinJón Daði í EM hópnum – Viðar varð eftir heima
Næsta greinGrýlupottahlaup 4/2016 – Úrslit