Rekstur röraverksmiðjunnar Set á Selfossi gekk vel á síðasta ári en fyrirtækið seldi vörur og þjónustu fyrir 1.230 milljónir króna.
Hagnaður af reglulegri starfsemi varð 140 milljónir króna, en afkoman var jákvæð um 37 milljónir króna fyrir skatta en eftir fjármagnsgjöld og afskriftir.
Set varð fyrir mesta samdrætti meðal íslenkra iðnfyrirtækja, sem voru á lista Frjálsrar verslunar árið eftir hrun 2009, en þá féll veltan um 46% milli ára úr 1.620 milljónum í 888 milljónir króna.
Að sögn Bergsteins Einarssonar, framkvæmdastjóra Set, má meðal annars rekja góðan árangur á síðasta ári til kaupa á röradeild Reykjalundar en kaupin áttu sér stað á síðari hluta árs 2009. Hluti aukningarinnar er tilkominn vegna starfsemi félagsins í Þýskalandi. Bergsteinn sagði að mikið kapp væri lagt á að auka umsvifin þar því þá mun framleiðsla á Selfossi og útflutningur einnig eflast.