Hagnaður Kerfélagsins fjórfaldaðist milli ára og og nam 7,2 milljónum króna á síðasta ári samanborið tæplega 1,8 milljón króna hagnað árið 2013.
Fjármunirnir hafa verið nýttir til þess að sinna brýnustu framkvæmdum á staðnum til þess að vernda hann.
Morgunblaðið greinir frá þessu.
Kerfélagið hóf gjaldtöku við Kerið árið 2013 en hver ferðamaður greiðir 350 krónur, tvær evrur eða þrjá Bandaríkjadali.
„Við höfum verið í umfangsmiklum framkvæmdum við stígagerð og fleira. Síðan hefur verið undirbúningsvinna í gangi til að mynda fyrir pallasmíð og fleira. Sömuleiðis er verið að leggja drög að deiliskipulagi fyrir svæðið. Þetta er allt eins og við töluðum um í upphafi. Þetta myndi standa undir sér,“ segir Óskar Magnússon, einn eigenda Kerfélagsins, í samtali við mbl.is.