Ársreikningar Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir árið 2022 hafa nú verið birtir. Niðurstaða ársreiknings 2022 sýnir jákvæða rekstrarniðurstöðu A og B hluta um 359 milljónir króna.
Rekstarniðurstaða A hluta var jákvæð um 146 milljónir króna. Samkvæmt efnahagsreikningi nema heildareignir A og B hluta rúmum 7,3 milljörðum króna. Bókfært eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2022 nam rúmum 3,8 milljörðum króna og er eiginfjárhlutfall sveitarfélagsins 52,03 %.
Auknar tekjur vegna íbúafjölgunar
„Ánægjulegt er að sjá að skatttekjur án framlaga úr jöfnunarsjóði hækka úr 1,8 milljarði árið 2021 í 2,1 milljarð árið 2022. Skýringin á þessum auknu tekjum liggur í því að íbúafjölgun hefur verið mikil á þessum tíma, auk þess sem nýjar fasteignir, bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði hefur fjölgað hratt,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri, í fréttatilkynningu.
Íbúum fjölgaði um rúmlega 4% á árinu 2022 og hefur þeim þar með fjölgað um hátt í 20% síðan 2018. Allt útlit er fyrir að íbúum fjölgi áfram á árinu 2023 enda mikil og hröð umsvif í byggingu íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu. Til marks um það má geta að íbúafjöldinn núna eftir fyrsta ársfjórðung er 2.613.
Skuldaviðmiðið lækkar
Skuldaviðmið Sveitarfélagsins Ölfuss hefur lækkað undanfarin ár, þrátt fyrir miklar fjárfestingar. Skuldaviðmiðið 2020 var 60,07% en er nú komið niður í 44,88% árið 2022.
„Niðurstaða ársreikninga er bæjarstjórn fyrst og fremst hvatning til að gæta þess áfram að missa ekki tökin á skulda og útgjaldahliðinni. Vandaður rekstur er það sem helst tryggir öfluga og góða þjónustu,“ segir Elliði í tilkynningu sinni.